Lög og markmið félagsins Ísland-Palestína

1. grein

Nafn félagsins er Félagið Ísland-Palestína. Félagið starfar á landsvísu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Markmið félagsins eru:

  • Að styðja baráttu palestínsku þjóðarinnar gegn hernámi og fyrir sjálfsákvörðunarrétti og rétti palestínsks flóttafólks til að hverfa aftur til síns heimalands.
  • Að kynna menningu og þjóðlíf palestínsku þjóðarinnar.
  • Að vinna gegn aðskilnaðarstefnu og hver kyns mismunun á grundvelli uppruna, ætternis eða trúarbragða.
  • Að vinna að því að ríkisstjórn Íslands styðji í verki rétt palestínsku þjóðarinnar til að stofna lífvænlegt, sjálfstætt og fullvalda ríki.
  • Að beita sér fyrir því, að Íslendingar leggi sitt af mörkum til þess að réttlát og friðsamleg lausn finnist á deilu Ísraels og Palestínu á grundvelli alþjóðaréttar og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og með tilliti til allra samþykkta Sameinuðu þjóðanna sem varða deiluna.

3. grein

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með kynningar- og útgáfustarfsemi, menningarstarfsemi, með heimsóknum, neyðaraðstoð og öðrum samskiptum við innlenda og erlenda aðila.

4. grein

Hver sá sem er sammála markmiðum félagsins og greiðir félagsgjöld getur verið félagsmaður.

5. grein

Aðalfund félagsins skal halda í byrjun hvers árs. Er hann opinn öllum félagsmönnnum. Skal hann boðaður með minnst einnar viku fyrirvara. Tillögur til lagabreytinga skal kynna í fundarboði.

6. grein

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar og reikningar
  2. Lagabreytingar
  3. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga félagins
  4. Ákvörðun félagsgjalds
  5. Starfið framundan og önnur mál

7. grein

Stjórn félagsins skal skipuð sjö félagsmönnum og að auki skal kjósa tvo til fjóra varamenn. Aðalfundur kýs formann sérstaklega til tveggja ára í senn en stjórnin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Árlega skal kjósa þrjá aðalmenn í stjórn til tveggja ára. Bráðabirgðaákvæði 2022: Kjosa skal þrjá stjórnamenn til eins árs.

8. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Lög samþykkt á stofnfundinum 29. nóv. 1987 með breytingum á aðalfundum félagsins 15. feb. 2004, 21. mars 2007, 2016, og 19. maí 2022.

Scroll to Top