Styðjum Möggu Stínu í för hennar með Frelsisflotanum til Gaza – Þrýstum á íslensk stjórnvöld að tryggja vernd flotans og að ólögleg herkví Ísraels um Gaza verði rofin!

Í gær, 30.september kl. 14:00 á íslenskum tíma, sigldi skipið The Conscience úr höfn frá Ítalía með 100 heilbrigðisstarfsmenn, blaðamenn, stjórnmálamenn og friðarsinna innanborðs. Þeirra á meðal er Margrét Kristín Blöndal, tónlistarkona, sem er fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í leiðangri með Frelsisflotanum til Gaza. 

Gaza Freedom Flotilla, eða Frelsisflotinn, er alþjóðlegur skipafloti sem siglir með hjálpargögn til íbúa á Gaza-svæðinu. Markmið flotans er að rjúfa ólöglegu herkvína sem Ísrael viðheldur við Gaza. Takist Frelsisflotanum að komast á áfangastað geta skip hjálparsamtaka fylgt á eftir og veitt íbúum Gaza lífsbjargandi aðstoð. Nú þegar er 50 skipa floti kominn langleiðina til Gaza.

Heimurinn veit að Gaza getur ekki beðið lengur. Þegar stjórnvöld neita að sinna skyldum sínum og horfa aðgerðalaus í tvö ár upp á hryllilegustu glæpi sem hægt er að ímynda sér, gerir almenningur það sem stjórnvöld hafa ekki hug til að gera. Það er Magga Stína að gera með því að taka þátt í þessum mikilvæga leiðangri og við dáumst að hugrekki hennar og munum styðja hana af öllum mætti. 


Allar aðgerðir Frelsisflotans eru í fullkomnu samræmi við alþjóðalög en síðustu daga hafa Ísraelar ráðist á skip þeirra með drónum og árásum á fjarskiptabúnað. Sum skipanna hafa orðið fyrir skemmdum. Í kjölfarið hafa Ítalía og Spánn sent varðskip til fylgdar flotanum – ekki síst til að vernda spænska og ítalska ríkisborgara um borð.

Við köllum eftir því að íslensk stjórnvöld, sem halda því fram að þau séu í fremstu röð þeirra sem styðja Palestínu, sýni það nú í verki. Líkt og Atlantshafsbandalagsþjóðirnar Ítalía og Spánn, eiga íslensk stjórnvöld að senda skip Landhelgisgæslunnar til fylgdar Frelsisflotanum. Stjórnvöld eiga enn fremur að beita öllum diplómatískum leiðum til að tryggja öryggi flotans og að þeim takist ætlunarverk sitt. Nú er tækifæri til að láta verkin tala. 

Við hvetjum alla landsmenn til að sýna Möggu Stínu og flotanum stuðning með því að fylgjast með ferð flotans og deila fréttum af honum. Athygli okkar veitir flotanum vernd og eykur líkur á að þau nái að brjóta herkvína. Þrýstum á stjórnvöld að tryggja öryggi flotans svo honum takist ætlunarverk sitt – að rjúfa ólöglega herkví Ísraels og opna leið fyrir neyðaraðstoð inn á Gaza. 

Yfirlýsing Möggu Stínu:

„Í tvö ár höfum við fylgst með þjóðarmorði í beinu streymi og almenningur um allan heim hefur mótmælt. Samt hafa stjórnvöld enn ekki brugðist við, þrátt fyrir vilja þjóðarinnar, þrátt fyrir yfirlýsingar allra helstu mannúðarsamtaka, sérfræðinga í þjóðarmorði og Sameinuðu Þjóðanna. 

Stjórnvöld heimsins bera ábyrgð. Þau eru skyldug til gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þennan hrylling. Það er skylda okkar allra að gera það sem við getum til að stöðva hryllinginn. Þess vegna tel ég það eina rétta að stíga um borð með því fólki sem tilbúið er að sigla til Gaza til þess að rjúfa ólöglegu herkvína og opna fyrir flæði mannúðaraðstoðar á svæðið.

Það er mjög mikilvægt að Ísland eigi fulltrúa í flotanum því íslenskur almenningur þolir ekki heldur þann veruleika sem yfirvöld heimsins láta óáreittan. Hann þolir ekki þessar hörmungar – ekki í eina mínútu í viðbót. 

Stríðsglæpirnir, þjóðernishreinsanirnar, sveltið, barnamorðin og allur hryllingurinn sem Ísrael beitir á Gaza verður að stöðva. Það sem er að gerast á Gaza er glæpur gegn lífinu. Það er andstætt öllum lögmálum lífsins. Við viljum ekki lifa í slíkum heimi. Þess vegna verðum við að berjast gegn því með öllum mætti.

Þess vegna sigli ég með Frelsisflotanum til Gaza: Af því að ég er manneskja, af því að ég er mamma, af því að ég er amma, af því ég veit að allar manneskjur með samkennd myndu gera það sama ef þau gætu. Ég veit ég er ekki ein í þeirri stöðu að vilja gera allt sem hægt er til að stöðva þennan hrylling, ég er hér fyrir hönd svo margra Íslendinga sem vilja gera það sama. 

Stöðvum þjóðarmorðið – Lifi frjáls Palestína!

Scroll to Top