Stjórn Félagsins Ísland – Palestína styrkir starfsemi UNRWA

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu, UNRWA, var stofnuð 1949 í kjölfar hörmunganna miklu, Nakba, þegar helmingur þjóðarinnar, um 750 þúsund Palestínumenn hrökkluðust frá heimilium sínum undan hryðjuverkum og landráni gyðinga. Sameinuðu þjóðirnar fundu til ábyrgðar sinnar og skipulögðu flóttamannaaðstoð hvarvetna sem palestínskt flóttafólk hafði komið sér fyrir, hvort sem var innan lands eða utan. UNRWA hefur frá upphafi verið burðarvirki hjálparstarfs á svæðinu. Samtökin hafa séð um skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu en ekki síst neyðaraðstoð i formi matargjafa og annars sem til þarf á tímum sem þessum. Framlög til UNRWA hafa frá upphafi verið skorin við nögl.

Aldrei hefur verið ríkari þörf fyrir starfsemi UNRWA en nú. Það voru því vond tíðindi þegar fréttist að utanríkisráðherra hefði hoppað upp í vagninn hjá Bandaríkjastjórn og 15 öðrum, þegar ísraelska leyniþjónustan þóttist hafa komið upp um samsæri, það er þátttöku 12 starfsmanna UNRWA í árás á Ísrael 7. október. Framlög Íslands voru fryst. Þótt ríkin séu ekki mörg sem taka þátt í þessu, þá er hlutur þeirra tiltölulega stór og horfir svo illa, að hætta er á að starfsemi UNRWA lamist um næstu mánaðarmót.

Um leið og Félagið Ísland-Palestína krefst þess af stjórnvöldum að þau axli ábyrgð sína gagnvart UNRWA og skjólstæðingum þeirra á Gaza, þá hefur félagið ákveðið að verja fimm milljónum úr Neyðarsöfnun félagsins til UNRWA. Félagið skorar á önnur félagasamtök, fyrirtæki og einstaklinga að leggja af mörkum og gera sitt til að bjarga UNRWA frá hruni. Það er um líf og dauða að tefla fyrir þúsundir og raunar meira en milljón manns sem er á vergangi á sunnanverðri Gazaströnd. Framlög í Neyðarsöfnun merkt UNRWA fara óskert þangað.

Scroll to Top