Ný skrifstofa og verslun Félagsins Ísland-Palestína

Félagið Ísland – Palestína hefur opnað skrifstofu fyrir starfsemina á efstu hæð í Hafnarstræti 15 – í sama húsi og veitingastaðurinn Hornið. Þar verður opið fyrir áhugasama félagsmenn sem vilja vinna ýmis verk til að styðja málstað Palestínumanna.

Þar verður einnig aðstaða til að selja vörur sem félagið hefur selt í fjáröflunarskyni. Um áraraðir hefur félagið verið með söluborð á Þorláksmessu á horni Skólavörðustígs og Laugavegar en meðfylgjandi mynd sýnir þá örtröð sem myndaðist í desember 2023. Mikil eftirspurn hefur verið eftir vörum frá Palestínu og eins bolum og öðru sem framleitt hefur verið hér á landi.

Þörfin á því að halda málstað Palestínumanna á lofti hefur sjaldan verið meiri og það er von FÍP að skrifstofan og verslunin verði leið til að viðhalda baráttuþreki og þrýstingi á stjórnvöld, og styðja fjárhagslega við Palestínumenn.

Scroll to Top