List fyrir Palestínu styrkir neyðarsöfnunina með átta milljónum króna

Mynd frá afhendingu styrks List fyrir Palestínu. Á myndinni eru

Yfir þessa síðustu mánuði hefur samstaða Íslendinga með málstað Palestínufólksins komið í ljós með ýmsum fallegum hætti, með samstöðugöngum, tónleikum og nú listaverkauppboði sem nokkrar listakonur tóku sig saman í sjálfboðavinnu um að halda. Í uppboðinu tóku þátt 163 listamenn og söfnuðu heilum átta milljónum níutíu þúsund fjögurhundruð þrjátíu og þrem krónum sem renna í neyðaraðstoð á Gaza.

Með einstökum stuðningi almennings hefur Ísland sett sitt mark á alþjóðasamhengið. Síðustu mánuði hefur félagið safnað vel yfir þrjátíu milljónum, og hefur þegar sent út rúmlega átta milljónir sem hefur verið ráðstafað til hjálparsamtaka sem aðstoða fólkið á gaza í þeirri miklu neyð sem þar ríkir. Íslenskur almenningur fer þannig öðruvísi að en utanríkisráðherra, sem fryst hefur greiðslur til UNRWA, þegar fólkið á Gaza þarf mest á aðstoðinni að halda. Við afhendingu styrksins í dag héldu skipuleggjendur ræðu, sem hér fylgir:

„Í gegnum tíðina hafa það ætíð verið listamenn, af öllum gerðum, sem hafa — í örlæti sínu — stutt við bakið á þeim sem eiga um sárt að binda. Og við öll leitað í þeirra smiðju á okkar bestu — og verstu stundum.

Það var í október að fjórar skapandi konur ákváðu að hrinda í framkvæmd listaverkauppboði á samfélagsmiðlinum Instagram í þeim tilgangi að safna fé í neyðarsjóð Félagsins Ísland Palestína.

Það var einmitt á þeim samfélagsmiðli þar sem við sáum og sjáum því miður enn — í rauntíma — þann hrylling sem er að eiga sér stað á Gaza. Þar sjáum við limlest og illa útleikin látin börn, örvæntingarfulla foreldra að leita barna sinna og ættingja í sundursprengdum húsum sínum, feður og mæður að hvísla orðum ofan í lítil hvít lök. Og þó við skiljum ekki tungumálið eða heyrum hverju hvíslað er, þá veit það hver manneskja sem hefur elskað, – hverju hvíslað er.

Í vanmætti og máttleysi yfir þessum mennsku hamförum sem birtast okkur í símtækjunum, höfum við leitað til listamanna um land allt að leggja þessu verkefni lið og nær undantekningarlaust hefur okkur verið gríðarlega vel tekið.

Söfnunin gekk vonum framar og það er von okkar að þetta framtak verði hvatning til ykkar – og okkar allra. Við getum nefnilega öll gert allskonar.

Höldum áfram að læka og deila góðu efni á samfélagsmiðlum.

Tökum samtal við fólkið í kringum okkur, í skilaboðum og í kommentaþráðum, skrifum greinar, . Höldum áfram að mæta á alla auglýsta viðburði og sýnum þannig sterka samstöðu í verki.

En peningar eru til lítils ef ekki verður komið á tafarlausu og varanlegu vopnahléi.

Forsætisráðherra sagði eitt sinn í sínu fyrra pólitíska lífi : “þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá” og er það yfirlýsing sem við tökum heilshugar undir þó núna virðist sem landtökunýlendan Ísrael njóti stuðnings og friðhelgis í okkar heimshluta og í okkar ríkisstjórn.

Aðgerðarleysi og þögn þeirra er ærandi.

Á morgun, mánudag, fer þriðja lota listaverkauppboðsins í loftið. Að þessu sinni söfnum við fé til fjölskyldusameiningar og mun allt sem safnast renna í sjóð Solaris sem stofnaður hefur verið sérstaklega því verkefni til handa. Endilega fylgist með.

Að lokum langar okkur senda okkar dýpstu þakkir til þeirra 163 listamanna sem lögðu þessum fyrsta hluta neyðarsöfnunarinnar lið. Án ykkar hefði þetta ekki verið hægt.

Það er því með ósk um frið og frjálsa Palestínu sem við afhendum Félaginu Ísland – Palestína hér með – átta milljónir, níutíuþúsud, fjögurhundruð þrjátíu og þrjár krónur. “

Félagið þakkar listafólkinu og skipuleggjendum innilega fyrir þetta stórkostlega framtak – vert er að benda á að List fyrir Palestínu ætlar að halda framtakinu áfram og stofna til nýs uppboðs, nú til styrktar söfnun Solaris til bjargar fólkinu sem hefur fengið samþykkta fjölskyldusameiningu hér á landi.

Scroll to Top