Yfirlýsing Félagsins Ísland-Palestína við Utanríkisráðuneytið 22. Júlí 2025

Við erum hér í dag vegna þess að valdhafar á Íslandi og í alþjóðasamfélaginu neita að bregðast við yfirstandandi þjóðarmorði Ísraelsríkis í Palestínu. Í gær var enn ein bitlaus yfirlýsingin gefin út – meðal annars af þeim sömu sem vopna og verja Ísraelsríki. Leikritið heldur áfram. Við höfum séð áhrif slíkra yfirlýsinga seinustu 77 ár, þau eru engin. Að halda áfram að láta yfirlýsingar og máttlaus áköll ykkar duga er það sama og að gefa Ísraelsríki leyfi til að halda helför sinni áfram. 

Ísrael hefur nú brotið alla bráðabirgðarúrskurði Alþjóðadómstólsins, Genfar sáttmálann, Rómarsáttmálann, bindandi ályktanir öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna og alla vopnahlés samninga. Hvar er rauða línan? Hversu mörg börn þurfa að vera limlest og drepinn þar til að Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín bregðast raunverulega við? Hversu mörg börn þurfa að svelta til bana? Nægir þeim ekki að Ísrael á heimsmet í morðum á hjálparstarfsfólki, starfsfólki Sameinuðu Þjóðanna og blaðamönnum? Heimsmet í að limlesta börn og fullorðna. Nægir ekki að Ísraelskir hermenn gerðu uppþot þegar svipta átti þá réttinum til að nauðga palestínskum mönnum, börnum og konum? Er ekki tilefni til aðgerða þegar Ísraelsher hefur sprengt öll sjúkrahús, alla háskóla og meira en 92% af öllum húsum á Gaza? 

Það er komið að lokalausn Ísraelsríkis. Hungursneyðin á Gaza er manngerð og þaulskipulögð. Öll gróðurhús hafa verið eyðilögð, allt gróðurlendi mengað og búfénaður drepinn af Ísraelsher til að tryggja að Palestínumenn á Gaza verði að fullu háðir utanaðkomandi neyðaraðstoð. Það er ekkert hreint vatn á Gaza og enginn þurrmjólk. Aðeins Bandarískir málaliðar fá nú að sjá um matar dreifingu á stöðum þar sem Ísraelsher og málaliðarnir drepa sveltandi fólk að handahófi. Að minnsta kosti hundrað manns eru myrt daglega. Niðurlæging, kúgun og dauði. 

Afleiðingarnar eru jafn augljósar og þær eru hræðilegar. Palestínumenn svelta nú til dauða, öll eru máttlaus af hungri og fjöldi þeirra sem verða hungurmorða mun margfaldast næstu daga. Þau börn sem komast lífs af munu bera merki vannæringar og hungurs til æviloka. Ráðamenn í Ísrael tala opinskátt um næstu skref enda hræðast þeir ekki máttlausar yfirlýsingar ykkar. Hin endanlega lausn er birt ykkur ráðamönnum en ekkert heyrist, ekkert gerist. Útrýming Palestínu er framundan. Palestínumönnum er smalað inná sífellt þrengri og minni svæði og loks í fangabúðir, ghettó, útrýmingarbúðir. 

Við getum ekki sætt okkur við aðgerðarleysi ykkar. Þið verðið að gera allt sem er í ykkar valdi til að brjóta herkvína á Gaza og tryggja óheft flæði neyðaraðstoðar strax! Í kjölfarið verður að binda enda á ógeðslegt, grimmilegt og ólöglegt hernám Ísraels yfir Palestínu.

Viðskiptaþvinganir, vopnasölubann og fullkomin alþjóðleg útskúfun og einangrun Ísraelsríkis er það eina sem mun binda enda á þjóðarmorðið. Það vita Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristrún Frostadóttir og við krefjum ykkur um að beita þessum aðgerðum!

Til embættismanna í Utanríkisráðuneytinu, ekki blindast af metnaði né sannfæringu um eigið hjálparleysi! Þið hafið völd og þið verðið að nota þau. Berjist fyrir réttlæti og heimi þar sem hinir sterku fá ekki að níðast á þeim veikari. Skipuleggið ykkur, mótmælið, leggið niður störf og lamið þessa stofnun þar til að valdafólk á Íslandi hlýðir alþjóðalögum og sinnir sínum skyldum gagnvart þjóðarmorðs sáttmálanum. 

Lifi frjáls Palestína!

Scroll to Top