Frið og réttlæti fyrir Palestínu: Útifundur á Austurvelli 20.apríl

Meira en 6 mánuðir eru nú liðnir frá því að árásarstríð Ísra­ela á Gaza hófst í október 2023, og enn virðist vopna­hlé eða friður ekki í neinu sjón­máli, og ekki vera for­gangs­atriði hjá rík­is­stjórn Íslands, sem enn hef­ur ekki for­dæmt hernað og stríðsglæpi Ísra­ela á Gasa. Af því tilefni boðaði Félagið Ísland-Palestína til útifundar á Austurvelli, en að fundinum stóðu einnig Menningar-og friðarsamtök íslenskra kvenna og Samtök Hernaðarandstæðinga.

Fund­ar­stjóri var Árni Pét­ur Guðjóns­son leik­ari. Ræðufólk var Gunn­ar Her­sveinn heim­spek­ing­ur, Lea María Lemarquis fyr­ir hönd Menn­ing­ar og friðarsam­taka ís­lenskra kvenna, Gutt­orm­ur Þor­steins­son frá Sam­tök­um hernaðarand­stæðinga og Man­ar Azzeh frá Palestínu. Öll gerðu þau frið og rétt­læti að um­fjöll­un­ar­efni í
ræðum sín­um.

Í ræðu sinni fjallaði Lea María einnig um að Katrín Jak­obs­dótt­ir, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, hafi neitaði að taka á móti tíu þúsund und­ir­skrift­um sem söfnuðust í gegn­um und­ir­skrifta­söfn­un á Ísland.is, þar sem þess var kraf­ist að Ísland styddi kæru Suður-Afr­íku gegn Ísra­el fyr­ir Alþjóðadóm­stóln­um. Þá sagði Lea María einnig að ut­an­rík­is­ráðherra á þeim tíma, Bjarni Bene­dikts­son, hafi neitað að veita und­ir­skriftal­ist­an­um mót­töku. Und­ir­skriftalist­inn hef­ur því enn ekki verið af­hent­ur.

Í lok fund­ar­ins dönsuðu fund­ar­gest­ir sam­an svo­kallaðan Dabke-dans sem er palestínsk­ur þjóðdans.

Scroll to Top